Njóttu Millimála

Bláberjabitar

Ég ákvað að búa mér til smá gotterí um daginn til að hafa eitthvað að narta í á laugardagskvöldi og urðu þessir dásamlegu bláberjabitar til. Það sem er svona dásamlegt við þessa bláberjabita að þeir eru alveg nógu sætir til að hafa þá sem nammi um helgar og þeir eru alls ekkert það óhollir að maður geti ekki haft þá sem millimál í miðri viku. Þá er sniðugt að skera þá bara í ílangar stangir. Eins og ég hef svo oft talað um er svo gott að eiga eitthvað góðgæti í frystinum um helgar til að narta í svo maður freistist ekki í einhverja óhollustu í stórmörkuðunum eða hverfissjoppunni. Ég er nú ekki með bestu sjálfstjórn í heimi svo ég verð oft að geyma eitthvað gotterí í frystikistunni niðrí kjallara og sækja það um helgar. Þá get ég átt eitthvað í stórum skömmtum þar og ég mæli alveg með því að gera þessa bita hér í stórum skömmtum.

Bláberjabitar

  • 90 gr brasilíuhnetur
  • 50 gr valhnetur
  • 30 gr mórber
  • 1 msk möndlusmjör
  • 5 msk kókosmjöl
  • 3 msk kókosolía
  • 2 msk kakósmjör (ekki nauðsynlegt, má líka nota kókosolíu)
  • 2 msk kakónibbur (má sleppa)
  • 1 tsk kakó
  • ½ tsk vanilla ( möluð vanilla- ekki vanilludropar – fæst bæði í krónunni og bónus )
  • ½ tsk kanill

Ofan á

  • 3 msk goji ber (einu rotvarnarefnislausu goji berin sem ég hef fundið eru frá vörumerkinu heilsa og fást þau m.a. í nettó og krónunni)
  • 4 msk bláber
  • 1 msk kókosmjöl
  1. Byrjaðu á því að setja braselíuhnetur, valhnetur og mórber í matvinnsluvél/blandara þangað til það er orðið vel malað.
  2. Næst skalt þú setja restina í matvinnsluvélina/blandarann.
  3. Settu bökunarpappír í brauðform og settu deigið í botninn. Sléttu úr því með sleif.
  4. Næst skaltu dreifa berjunum og kókosmjölinu yfir degið og þrýsta þessu aðeins niður í deigið með höndunum. Svo það sé ekki laus mulningur ofan á.
  5. Skelltu þessu í frystinn og skerðu niður þegar þetta er orðið frosið. Geymdu þetta svo í frystinum og borðaðu beint þaðan.

ATH!

  • Þú getur notað hvaða hnetur sem er í þetta, ég er sérstaklega skotin í brasilíuhnetum þessa dagana.
  • Ef þér lýst ekki á mórber þá koma döðlur í staðin fyrir þau þó hvet ég þig eindregið til að prufa mórberin.

Verði þér að góðu.

You Might Also Like

No Comments

Leave a Reply